Úr ofþjálfun yfir í Grænmeti

Vegna fjölda áskoranna lét ég verða af því að henda upp minni eigin vefsíðu. Aðallega var það kærastan mín hún Sandra Sif  sem hvatti mig og vildi að ég deildi því með heiminum hvað ég væri að borða.

Semsagt í desember 2012 breytti ég mataræði mínu yfir í “plant based”. Með öðrum orðum gerðist ég grænmetisæta. Ég hef í gegnum tíðina haft mikla fordóma gagnvart grænmetisætum og eiginlega bara gagnvart grænmeti yfir höfuð. Ég leit á þetta fólk sem veiklulega hippa sem voru vannærðir og borðuðu laufblöð í öll mál. En sannleikurinn er sá að ég vissi ekki betur, ég hafði ekki kynnt mér málið að neinu leiti og fordómarnir stöfuðu af þekkingarleysi og skorti á upplýsingum (sem er yfirleitt uppspretta allra fordóma). En þegar ég lít til baka þá voru fordómar mínir ekkert óeðlilegir. Við erum alin upp í samfélagi þar sem læknar birtast í auglýsingum og segja þér að þú verðir að drekka tvö mjólkurglös á dag því annars færðu ekki nægilega mikið kalk. “Heilsugeirinn” predikar stöðugt að þú verðir að innbyrða prótein í öll mál annars geturu ekki byggt upp vöðva. Ef þú vilt létta þig þarftu að borða prótein, prótein og aðeins meira prótein. Það er svo mikið um misskilning um næringu í samfélaginu að það er erfitt að vita hvaða næringu á að innbyrða til þess að vera heilbrigður. Þegar ég varð eldri fór ég að hafa áhuga á næringu og hvernig ég gæti notað hana sem einn lið í að ná betri líkamlegum og andlegum árangri. Mig langar að deila með fólki hvernig ég næri mig, hvað mér finnst hafa góð áhrif á mig og hvað ekki. Ég vil taka það fram að ég er ekki næringarfræðingur né með neina menntun á þessu sviði. Ég hef bara aflað mér þekkingar í gegnum bækur, greinar á netinu, heimildarmyndir og svo það sem ég hef prufað og upplifað sjálfur. Ég vil miðla af reynslu minni og dreifa boðskapnum.

En spólum aðeins til baka. Þegar ég var krakki var ég mikill matmaður, ég borðaði allt sem fyrir framan mig var lagt. Þrátt fyrir það var ég frekar horaður á þessum árum (er það reyndar enn í dag) en það var ekki vegna næringarskorts heldur var ég mjög “(of)virkur”. Þegar ég var unglingur pældi ég aldrei í mataræði, borðaði bara allt sem mamma mín eldaði, sem var oftast nokkuð hollt. En þegar matur mömmu minnar var ekki í boði þá borðaði ég mikinn skyndibita eins og margir á þessum aldri. Ég pældi ekkert í næringarlegu gildi, borðaði dominoz pizzur með félögunum, sveittur hamborgari á hamragrilli var vikulegur viðburður, nammibarir verslana voru tæmdir á laugardögum og það var stoppað á McDonalds reglulega (ég starfaði meira að segja þar í 2 ár). Þetta var samband mitt við mat, ekkert. Ég borðaði bara það sem mér fannst gott á bragðið. En það skipti engu máli, ég bætti aldrei á mig, var alltaf mín 4 – 5 % í fitu, og gat hlaupið endalaust.

Árið 2005 spilaði ég mitt fyrsta tímabil með meistarflokki Breiðabliks þar sem ég var byrjunarliðsmaður. Við vorum í fyrstu deild með mjög gott lið byggt að mestu leiti á heimamönnum. Við enduðum í fyrsta sæti og fórum í gegnum tímabilið án þess að tapa. Þetta var fínt ár fyrir mig, ég fékk góða reynslu af meistaraflokksbolta og mikið sjálfstraust á öllum sigrunum. Áfram borðaði ég án þess að hugsa og áfram skipti það ekki máli hvað líkamlega getu varðaði. Árið 2006 spilaði ég minna, var mikið á bekknum, næringin hélst áfram óbreytt. Árið 2007 átti ég mjög gott tímabil sem vakti athygli. Ég var orkumikill gat hlaupið mikið. Ég vann 9 tíma á dag í erfiðisvinnu og æfði síðan ofaná það. Áfram pældi ég ekkert í næringunni og líkamlega virtist það engu máli skipta, þangað til. Í lok tímabilsins lenti ég gjörsamlega á vegg. Ég man að einn daginn var ég algjörlega búinn á því og gat varla vaknað, vildi sofa endalaust. Gríðarleg langtíma þreyta kom yfir mig og ég tók eftir því í leikjunum. Þetta voru allt einkenni ofþjálfunar. Ég gat varla labbað upp stiga án þess að fá mjólkursýru í lærin sem jafnaðist á við erfiða æfingu. Ég þorði ekki að segja neinum frá þessu, því mér fannst þetta svo aulalegt. Ég taldi að þreyta væri ekki viðurkennd sem “meiðsli”. Ég þorði ekki að segja þjálfaranum mínum né neinum öðrum að ég væri þreyttur vegna þess að ég var hræddur við viðbrögðin sem ég hélt að ég fengi. Ég staulaðist í gegnum restina af tímabilinu með hjálp orkudrykkja og annara eiturefna. Ég gerði í raun ekkert í þessu strax, tímabilið kláraðist og ég tók smá frí en samt ekki. Hélt áfram að æfa sjálfur því ég vildi ekki detta úr formi, því mér fannst öll þreytan geta stafað af því að vera kominn í verra form. Ég gaf skrokknum aldrei þá hvíld sem hann þurfti á að halda og þess vegna hélt ég áfram að grafa dýpri og dýpri holu, ég varð þreyttari og þreyttari. Tímabilið 2008 hélt ég áfram þar sem frá var horfið, ég var farinn að sætta mig við að vera í verra formi en áður, ég var mjög lengi að jafna mig eftir leiki og jafnaði mig í raun aldrei að fullu því ég var djúft sokkinn í langtíma þreytu. Þetta var vítahringur. Ég vildi ekki taka mér frí því ég taldi mig vera í slöku formi, æfði frekar auka og varð þreyttari fyrir vikið. Ég hélt áfram að “nærast” á orkudrykkjum og öðrum hlutum sem gáfu mér skjótfengna orku, en í raun hjálpuðu þessir hlutir bara til við það að grafa mig ennþá dýpra í ofþjálfunar pyttinn. Ég fór í nokkrar blóðprufur sem gáfu það allar til kynna að allt væri í lagi, því taldi ég verra form vera einu skýringuna á slöku líkamlegu ástandi mínu.

Stór hluti af tímabilinu 2009 var svipaður, þangað til að ég ákvað að prufa að breyta mataræðinu. Ég byrjaði á því að fræða mig mjög mikið um næringu, las mikið af greinum héðan og þaðan og horfði á heimildarmyndir. Fyrsta breytingin sem ég gerði var að hætta að drekka gos og borða nammi. Það var frekar auðvelt að hætta því og löngun í þessa hluti hvarf frekar fjlótlega. Samfélagslega var þetta líka auðvelt því það er almennt viðurkennt að þessir hlutir séu óhollir og því sætti fólk sig við þessa ákvörðun mína. Ég færði mig fjlótlega yfir í aukna neyslu á ávöxtum og grænmeti. Byrjaði að blanda mér boozt sem vöktu misjafna athygli hjá ýmsum aðilum fyrir óhefðbundna liti. Þetta fyrsta skref mitt í átt að bættri næringu var ekkert risastórt en ef ég miða við hvernig ég nærði mig áður þá var þetta allavega góð byrjun. Ég hélt áfram á sömu braut og reyndi að bæta mig dag frá degi, smátt og smátt. Ég lagði áherslu á að borða heilnæman mat eða mat sem var eins lítið unninn og hægt var. Ég hætti að borða unnar kjötvörur og mikið unna hluti eins og hvítt hveiti og hvítan sykur, borðaði í staðinn hreint óunnið kjöt og heilkorn. Ég jók neyslu mína á lífrænt ræktuðum hlutum og borðaði meira af grænmeti og ávöxtum.

Þegar tímabilið 2010 var að hefjast var ég farinn að finna mjög greinilegan mun á mér. Ég varð orkumeiri með hverjum deginum sem leið og mér leið töluvert betur líkamlega. Ofþjálfunarþreytan var nánast farin en samt ekki alveg. Hún kom mjög vægt aftur í stuttar stundir þegar ég passaði mig ekki, æfði of mikið og/eða hvíldi of lítið. En þarna var ég kominn á rétta braut, ég fann það á líðan minni. Frá því að borða nammi, drekka gos og borða án þess að hugsa, yfir í að borða mikið af grænmeti og ávöxtum og hreinum mat.

Þegar tímabilið 2011 gekk í garð var ég nánast alveg laus við ofþjálfunareinkennin. Ég hélt áfram á sömu braut í næringunni en reyndi samt alltaf að bæta mig, eitt lítið skref í einu. Á þessum tímapunkti var mér farið að líða töluvert betur líkamlega og var munurinn á mér þarna og í lok árs 2007 eins og svart og hvítt. Ég var hraustur og það þurfti líka meira til þess að ég veiktist. En samt fannst mér ég aldrei ná sömu líkamlegu hæðum og áður. Í Lok ársins 2011 fór ég að spila í Noregi og þá breyttist mataræðið aftur til hins verra. Ég veit ekki afhverju, kannski var það vegna þess að mér var farið að líða það vel að ég taldi mig ekki þurfa á góðri næringu að halda lengur. Þetta var mjög slök ákvörðun, ég fór kannski ekki alveg aftur í sama farið en ég fór aftur að drekka gos, borða nammi og skyndibita. Öfgamaðurinn inní mér kom fram og ég átti erfitt með að halda neyslu minni á þessum hlutum í hófi. Líkamlega fann ég engan stórkostlegan mun á mér, mér leið áfram ágætlega, líklega vegna þess að ég var búinn að leggja ágætis grunn árin áður.

Í byrjun árs 2012 varð ég síðan veikur, var rúmliggjandi í nokkra daga sem hafði ekki gerst í mörg ár. Mér fannst þetta ekki tilviljun og tengdi þetta strax við slaka næringu, mikla kók og kebab neyslu. Því breytti ég aftur, tók út allan skítinn og bætti gæðunum inn. Ég var í fínu standi þetta tímabil en fannst samt einhvað smá vanta. Ég hélt áfram að lesa mig til og mennta sjálfan mig um þessa hluti. Ég fór að sjá á ýmsum stöðum um mikilvægi grænmetisneyslu, ekkert sem kom á óvart svosem. Nema það að ég fór að lesa greinar um neyslu á dýraafurðum og skaðsemi þeirra á heilsu okkar. Ég las meira og rakst á íþróttafólk sem höfðu gerst grænmetisætur með góðum árangri í sinni íþróttagrein. Ég las bókina the China Study sem er mjög áhugaverð rannsókn á því hvað dýraafurðir og neysla þeirra gerir okkur. Ég horði á heimildarmyndina Forks Over Knives sem tekur í sama streng. Eftir mikla rannsóknarvinnu þá var ég orðinn nokkuð sannfærður um að í minnsta kosti prufa þessa leið, semsagt gerast grænmetisæta. Þetta var í lok árs 2012. Ég ákvað að bíða með þetta þangað til eftir tímabil því ég var ennþá efins á áhrif þessa mataræðis á líkamlega frammistöðu mína sem íþróttamanns. Því var tilvalið að prufa þetta eftir tímabilið þegar líkamlegt álag var minna og ég stjórnaði öllum mínum máltíðum sjálfur.

Í desember 2012 gerðist ég semsagt grænmetisæta eða vegan og hef verið það síðan. Ég reyndar forðast að setja mig í einhvern ákveðinn flokk. Ég borða bara það sem ég tel vera hollt og það vill svo til að það er flokkað sem vegan. Mér finnst byggt á plöntum útskýra mataræði mitt betur. En að mataræði mitt sé byggt á plöntum þýðir, að ég borða ekki neina hluti sem koma frá dýrum. Semsagt ekki kjöt, enga mjólkurafurði og engin egg. En hvað er þá eftir? Í grófum dráttum samanstendur mataræði mitt af Grænmeti, ávöxtum, hnetum, fræjum, baunum og heilu korni. Margir hafa sagt við mig, “er þetta allt og sumt?” eða “þetta er nú ekki mjög fjölbreytt”. En ef þetta er skoðað betur þá er á bakvið hvern flokk gríðarlega fjölbreytt flóra af gæða næringu. Það eru til mörg þúsund tegundir af mismunandi grænmeti, enginn veit nákvæmlega hversu margar þær eru. Eftir að ég fór yfir í grænmetið, borða ég töluvert fjölbreyttara og er óhræddari við að prufa nýja hluti en áður. Þannig að þó mataræði byggt á plöntum virðist í fljótu bragði vera mjög einhæft þá er það það alls ekki. Það er erfitt að sannfæra fólk en þetta er eitthvað sem ég komst að af eigin reynslu.

Munurinn sem ég finn á mér er líka nokkuð magnaður hingað til. Ég var ekki að leitast eftir einhverjum “megrunarkúr” heldur langaði mig bara til þess að bæta eigin heilsu og líkamlega getu í íþróttum. Helsti munurinn  sem ég finn á mér er styttri tími í endurheimt eftir erfiðar æfingar og leiki. Einnig er bata tími eftir meiðsli mun styttri. Ég er mun orkumeiri og finnst líkamlegt form betra og meira svigrúm til bætingar. Mér finnst ég stöðugt vera að bæta mig líkamlega. Það er dramantískt að segja þetta en mér finnst hugsun mín skýrari. Það er erfitt að útskýra þetta en mér líður bara betur á öllum sviðum, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt. Eins og staðan er núna þá finnst mér ég vera á réttri braut og ég tými hreinlega ekki að breyta til baka. En þrátt fyrir það þá er ég alltaf að reyna að bæta mig og lesa mig meira til um þessa hluti. Því í þessum bransa þá er mjög erfitt að vita hvað er 100% besti kosturinn. Eins og ég kom inná áðan þá er svo mikið um rangar upplýsingar þegar matur er annars vegar og það er erfitt að vita hverjum á að trúa og hverjum ekki. Því tel ég að best sé að fræða sjálfan sig og fara eftir eigin skynsemi. Mín skynsemi segir mér að matur, eins nálægt því formi sem hann kom úr náttúrunni, sé bestur. Mín skynsemi segir mér að mjólk úr annari dýrategund sé ekki nauðsynleg fyrir mannskeppnuna til þess að þróa eðlilega beinheilsu. Mín skynsemi segir mér að matur sem hlaðinn er aukaefnum sem framleidd eru í tilraunastofu geta ekki verið góð fyrir mannslíkamann.

Ég hvet ykkur til þess að trúa ekki öllu sem “heilsugeirinn” segir, fræða ykkur sjálf um næringu, lesa innihaldslýsingar, næra ykkur meðvitað og síðast en ekki síst fara eftir eigin skynsemi þegar kemur að matnum sem þið setjið ofaní ykkar eigin líkama. Þetta er jú eini líkamninn sem við fáum, förum vel með hann.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson

12 Comments:

 1. Frabær lesning! Er otrulega ahugasøm um tennan breytta lifstil tinn og fylgist spennt med 😀

 2. Kolbeinn Tumi Baldursson

  Hrikalegur misskilningur í samfélaginu um grænmetisætur/vegan. Allir halda að íþróttamenn þurfa kjöt og mjólk fyrir prótín. Fólk veit ekkert um næringarinnihald plöntufæðu og veit líka ekki rassgat um prótínþörf mannsins eða hvað prótín gerir. Maður sér oft skrifað í greinum í blöðunum og á netinu:”Maður þarf að fá nóg af prótíni því að það er bensín fyrir vöðvana”. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að vöðvarnir þurfa kolvetni fyrir orku og þess vegna ættu allir íþróttamenn að hugsa mest um að fá gæða kolvetni í öll mál og hugsa aðeins minna um prótín sem gerir við og myndar nýjan vöðvavef. Hversu mikið af nýjum vöðvavef heldur fólk að maðurinn framleiði eftir hverja æfingu?

  Síðan er það kalkið úr mjólkinni. Fólk veit ekki að þegar við neytum dýraprótíns sýrir það blóðið og þá þarf líkaminn að seyta kalki úr beinvef til þess að ná réttu pH gildi aftur. Samt er mjólk “svo holl fyrir bein og tennur”.
  Ég drakk rúmlega líter af mjólk á dag í svona tvö ár og samt var ég með hvíta flekki á tönnum og nöglum sem er tákn um kalkleysi. En manni var alltaf sagt að mjólk væri svo holl fyrir tennur og bein haha 🙂

  Flottur pistill 😉

  • Það er vel rúmlega dagskammtur af kalki í einum lítra af mjólk, þannig að þetta var varla skortur á kalki… Þú þarft að taka D vítamín til að líkaminn nái að vinna úr kalkinu,

   • Það er hárrétt hjá þér Atli að það þurfu D vítamín til þess að vinna úr kalki. En það eru margar rannsóknir sem benda til þess að það sé erfitt fyrir mannskeppnuna að vinna kalk úr kúamjólk. Það er meira að segja ýmislegt sem bendir til þess að það sé tenging á milli beinþynningar og neyslu á mjólk.

  • Mjög vel mælt Kolbeinn. Ég var í sama pakka varðandi mjólkinga, þambaði hana eins og vatn vegna þess að ég hélt að þetta væri hollasti drykkur sem ég gæti fengið. Það er líka áhugavert að skoða í hvaða löndum beinþynning er mest, þar er oft neysla á mjólkurafurðum hvað mest.
   Hef líka verið að skoða samband mataræðis og ph gildi skrokksins. Það er ótrúlegur munur á milli jurtafæðu og dýraafurða í þeim efnum. Held að það sé varla hægt að finna fæðu í dýraríkinu sem er basísk, aftur á móti er grænmetið í flestum tilfellum basískt.

 3. Halla Magnúsdóttir

  Til hamingju með þessa flottu ákvörðun. Vek athygli þína á fb-hópnum Íslenskar grænmetisætur. Þar er hægt að komast í kynni við aðrar grænmetisætur af öllum stærðum og gerðum og sækja stuðning og fræðslu frá reynsluboltum og öðrum boltum 🙂 Svo er verið að stofna hagsmunasamtök grænmetisæta á morgun í Lifandi markaði í Borgartúni kl. 14.00 . Gangi þér vel.

  • Sæl Halla og takk fyrir það. Ég er kominn inní facebook hópinn, frábært að geta fengið ráð frá reynsluboltum, maður er alltaf að reyna að læra. En Ég komst því miður ekki á þennan stofnfund þar sem ég er búsettur í Noregi, en mér finnst þetta frábært framtak og langar mig að vera virkur í þessum samtökum.

 4. Hjördís Þorsteinsdóttir

  Sæll Arnór Sveinn og til hamingju með vefsíðuna! Ég er læknir sem býr í Osló og spilaði líka lengi fótbolta með Breiðablik, m.a. með Söndru Sif. Mér finnst þessi lífstílsbreyting þín alveg frábært framtak og er mjög áhugasöm um að fylgjast með þér í þessu (og þakklát fyrir að þú leyfir okkur að fylgjast með). Mér finnst sérstaklega áhugavert að fylgjast með þér þar sem þú ert í vinnu þar sem skiptir máli að líkaminn sé í góðu ásigkomulagi og orkuþörf líkamans mikil. Nú hef ég lært dálítið í næringarfræði í gegnum mitt nám og veit að maður getur fengið svo til alla orku og næringarefni sem maður þarf út úr því mataræði sem þú ert á núna en held að það sé samt ekki fyrir hvern sem er… Maður verður (eins og þú gerir) að spá mikið í því að maður fái allt sem maður þarf og passa að borða fjölbreytt. Eins og t.d. með kalkið þá er alls ekkert mikið af því í öllu grænmeti og því oft auðveldara að fá skammtinn úr “tveimur glösum af mjólk” eins og auglýsingin segir. En auðvitað er þetta miklu betra fæði en að borða McDonalds og Kebab í öll mál. Ég er líka forvitin með sumar fitusýrurnar sem maður fær helst úr fiskiafurðum… er ekkert mál að fá þær úr þinni fæðu (aðeins farið að snjóa yfir næringarfræðina mína og svo var hún ekkert of ítarleg)?
  Væri sjálf til í að prófa svona mataræði en ber fyrir mig tímaleysi… eða ég reikna með að það hljóti að fara töluverður tími í spekulasjónir og þess háttar í tengslum við þetta en kannski er það aðallega í byrjun…? Veit reyndar heldur ekki hvernig gengi að bjóða tveimur litlum gríslingum svona fæði þegar maður er í vandræðum bara með að koma tómötum ofan í þá!
  En gangi þér sem allra best í þessu og öllu öðru. Hlakka til að fylgjast með þér. Bið kærlega að heilsa Söndru Sif.

  • Sæl Hjördís og takk fyrir að sýna síðunni áhuga. Það fer mun minni tími í pælingar í mataræði hjá mér en þú líklega heldur. Ég hef vissulega mjög mikinn áhuga á þessu og pæli mikið, en þegar ég skipulegg máltíðir hugsa ég ekki í vítamínum og steinefnum, eða hvort ég sé búinn að fá skammtinn minn af hinu og þessu vítamíni o.s.frv. Fyrir mér snýst þetta allt um lífstílsbreytingu og sjálfbærni. Það sem ég meina með því er að þetta á ekki að vera of flókið eða yfirþyrmandi á neinn hátt og á að snúast um langtímabreytingu frekar. Ég tel best að gera breytingar til batnaðar í smáum skrefum, eitt skref getur t.d. verið að breyta einni máltíð á dag eða þegar verslað er í matinn að kaupa einn hollan hlut sem vanalega er ekki keyptur. Þetta snýst að stórum hluta um þær venjur sem við erum búin að temja okkur. Það getur oft á tíðum verið yfirþyrmandi að leita sér upplýsinga og sjá hversu lítið maður í raun veit. Maður verður að sætta sig við það að maður viti ekki allt og geri ekki allt fullkomið strax (eða aldrei). Frekar leggja áherslu á að breyta til batnaðar dag frá degi lítið skref í einu. Í stað þess að ætla að breyta öllu á einu bretti og þegar það tekst ekki, fara þá í sama farið.
   Varðandi fitusýrurnar í fisknum reikna ég með að þú sért að tala um omega 3. Það eru til frekar margar góður uppsprettur af omega 3 í plönturíkinu. Hörfræ, chia fræ, hemp fræ (veit ekki ísl) held blómkál líka og eflaust fleira, þetta er bara það sem ég á yfirleitt heima hjá mér. Hef einnig heyrt að það skipti miklu máli að hafa omega 3 6 og 9 í jafnvægi. Nú til dags er algengt að það sé ekki jafnvægi þarna á milli hjá fólki, vegna þess að það er mikið af omega 6 í unnum matvælum og því fær fólk of mikið af því í hlutfalli við omega 3. Fiskurinn er líka ríkur af d vítamíni og við vitum það að fólk á norðlægum slóðum þarf að huga að því yfir vetrartímann þegar við fáum það ekki úr sólinni.
   En ég vona að þér gangi allt í haginn og Sandra Sif biður kærlega að heilsa þér líka.

   Arnór Sveinn

 5. Pingback: Hráfæði? | Létt líf

 6. Gísli Hjartar

  Sæll Arnór Sveinn

  Takk fyrir góðan og fræðandi pistil. Gaman að sjá hvernig þú hefur nálgast þetta og það klárlega borið árangur. Ég hef sem hálfgjört gamalmenni með íþróttaáhuga að fornu tekið upp líkamsrækt af nokkrum áhuga síðustu ár og einmitt núna síðustu 2 ár verið að reyna að bæta matarræðið til hins betra – skulum við segja. Það hefur gengið ágætlega sérstaklega síðustu mánuði – en ég borða þó en kjöt og fisk, en hef dregið úr því sérstaklega kjötinu. – Tók reyndar fyrir mörgum árum, 1989, eina 7 mánuði án þess að borða kjöt eða fisk – og lifði það auðvellega af hann einhvern veginn gafst svo upp og líkaði ekki illa en sveigði samt af braut. – En nóg um það. Mér finnst ein mitt þessi punktur hérna í svari þínu til hennar Hjördísar hér að ofan svolítið góður:

  “Það fer mun minni tími í pælingar í mataræði hjá mér en þú líklega heldur. Ég hef vissulega mjög mikinn áhuga á þessu og pæli mikið, en þegar ég skipulegg máltíðir hugsa ég ekki í vítamínum og steinefnum, eða hvort ég sé búinn að fá skammtinn minn af hinu og þessu vítamíni o.s.frv. Fyrir mér snýst þetta allt um lífstílsbreytingu og sjálfbærni. Það sem ég meina með því er að þetta á ekki að vera of flókið eða yfirþyrmandi á neinn hátt og á að snúast um langtímabreytingu frekar. ”

  Hef oft haldið því fram í ræktinni, og annars staðar, að þegar fólk ætlar a söðla alveg um í matarkistunni 1, 2 og 3 að þá rennur fólk til á bananahýðinu og gefst upp. Það hefur allavega reynst mér betur að gera þetta hægt og rólega spá ekki of mikið í hvert skref en vita að það er í rétta átt að því markmiði sem að maður hefur ætlað að ná á endanum. Það tekur tíma að ná tökum á þessu eins og svo mörgu öðru og þá er stundum farsælla til árangurs að fara sér aðeins hægar.

  En gangi þér áfram sem allra allra best – takk fyrir góðan pistil, í framhaldi af honum fékkstu mig til að lesa t.d. uppskriftirnar á síðunni þinni 🙂

  Bestu kveðjur
  Gilli Foster

  • Sæll Gísli og takk fyrir að lesa pistilinn. Áhugi þinn á bættu mataræði er mjög gott fyrsta skref í átt að bættum lífstíl. Eins og ég segi þá er oft ekkert gott að henda sér beint útí djúpu laugina þegar kemur að svona breytingum. Það getur verið of yfirþyrmandi og ollið því að fólk gefist algerlega upp. En gangi þér allt í haginn og haltu áfram að taka eitt skref í einu í rétta átt.

   kv. Arnór Sveinn

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *