Kínóa og steikt grænmeti

Ég hef verið að prufa mig áfram með kínóa, eftir að ég komst að heilsusamlegum ávinningum þess. Hægt er að líkja kínóa við hrísgrjón hvað áferð og notkun varðar en það er víst mun hollara. Kínóa er fræ og er því laust við glútein, það er góð uppspretta gæða kolvetna, einnig er talað um það sem góðan próteingjafa. Þessi uppskrift er einföld og hægt að nota sem meðlæti eða sem aðalrétt eins og ég geri. Hjólum í þetta:

  • Kínóa 2 bollar
  • Vatn 4 bollar
  • Grænmeitiskraftur 1-2 matskeiðar (laus við msg)

Gott er að leggja kínóa í bleyti í nokkra tíma (t.d. yfir nótt) áður en það er eldað, til að hreinsa það. Stundum gleymi ég því, þá læt ég það duga að hreinsa kínóa fræjin vel í sigti áður en ég elda þau. Það þarf víst að hreinsa af einhverja húð sem situr utaná fræjunum. Þegar kínóa fræjin eru elduð þarf tvöfalt magn af vatni á móti kínóa, mjög einfalt. Skellið öllu í pott, látið suðuna koma upp, lækkið svo og látið sjóða þar til vatnið er farið.

Á meðan þetta á sér stað er grænmetið steikt á pönnu. Það er mjög einfalt að nota hugmyndaflugið hér en til að gefa ykkur hugmynd þá ætla ég að lista upp það grænmeti sem ég notaði síðast.

  • Kókosolía
  • Rauðlaukur
  • Sveppir
  • Brokkolí
  • Paprika
  • Krydd

Eins og ég segi þá hvet ég ykkur til að prufa mismunandi útfærslur. Ég steiki þetta uppúr kókosolíu, því hún gefur svo gott kókosbragð. Svo er það bara að krydda eftir þörfum, t.d. með timjan, óreganó, basiliku og cayenne pipar, enn og aftur bara að nota frumleikann.

Þegar grænmetið hefur verið steikt eftir smekk þá má blanda því saman við kínóa fræjin og vola rétturinn er klár.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *