Hræringar

Besta leiðin til þess að auka neyslu ávaxta og grænmetis er að henda því í blandarann. Ég geri mér hræring lágmark einu sinni á dag, oftast á morgnanna. Ég geri ca. 2 lítra, drekk 1 líter í morgunmat, á 0,5 lítra eftir æfingu og  loks 0,5 lítra sem ég drekk seinna um daginn. Fólk biður mig reglulega um uppskriftir af þessum drykkjum en sannleikurinn er sá að ég fer aldrei eftir slíkum. Það sem ég geri er að ég hendi bara af handahófi ávöxtum, grænmeti, fræjum og fleira góðgæti sem ég á í ísskápnum í blandarann.

Ég ætla að gefa ykkur lista yfir uppáhalds blandara hráefnið mitt og gefa ykkur tvö dæmi um góða og orkumikla hræringa.

Dæmi um einn góðan:

 • Grænkál
 • Epli
 • Banani
 • Appelsína
 • Gulrót
 • Rauðrófa
 • Tómatar
 • Döðlur
 • Hörfræ
 • Vatn
 • Klaki

Þennan hræring gerði ég mér í morgun, mjög bragðgóður og næringaríkur. Grænkál er eitt það allra hollasta sem hægt er að setja ofaní sig, þess vegna legg ég mikla áherslu á að borða það sem oftast. Epli og bananar eru mjög gott hráefni í hræringa, gera gott bragð og gefa góða næringu þess að auki. Eitt gott ráð varðandi appelsínur er að skræla bara rétt ysta lagið af berkinum af og skilja sem mest af þessu hvíta eftir. Þetta hvíta sem er undir berkinum á appelsínunni er það sem geymir mest alla næringu ávaxtarins. Rauðrófur eiga að vera góðar fyrir súrefnisflutning í blóði sem er sérstaklega gott fyrir íþróttafólk (og auðvitað alla aðra líka). Ég elska döðlur og er farinn að nota þær í flest allt sem sætu. Þær bragðbæta hræringinn sem er mjög fínt þegar notað er vatn sem vökvi. Hörfræ nota ég til að þykkja og gefa mér omega 3 fitusýrur.

Annar góður:

 • Brokkolí
 • Spínat
 • Blómkál
 • Gulrót
 • Jarðaber
 • Bláber
 • Epli
 • Banani
 • Döðlur
 • Graskersfræ
 • Vatn
 • Klaki

Brokkolí og spínat eru full af næringu og eins og annað grænt grænmeti er það mjög K vítamín ríkt og auk þess er brokkolí mjög C vítamín ríkt. Ég set yfirleitt ekkert allt of mikið af blómkáli því það getur skemmt bragðið. Jarðaber og bláber eru vinsæl hjá mér, en ég reyni að borða fjölbreytt úrval af berjum. Ber eru mjög rík af andoxunarefnum en það eru efni sem gera við frumur líkamans. Því er gott fyrir íþróttamanninn að borða andoxunarríkan mat til þess að hraða endurheimt eftir átök. Ég nota graskersfræ til þess að þykkja hræringinn, en þau eru rík af steinefnum, til dæmis járni og magnesíum.

Eins og ég segi þá fer ég aldrei eftir uppskriftum þegar ég geri mér hræring. Ég reyni bara að hafa þá eins fjölbreytta og næringaríka og kostur er. Ég hef mjög gaman að því að prufa eitthvað nýtt og er óhræddur við að henda allskyns góðgæti í blandarann. Í versta falli verður hann vondur á bragðið og stútfullur af orku!

Hérna fyrir neðan er listi yfir hráefni sem mér finnst gott að nota í hræringa. Allt hráefnið er hlaðið af næringu og hvet ég ykkur til þess að prufa ykkur áfram í þessum efnum og búa til ykkar eigin blöndur. Ég skora á ykkur að gera hræring einu sinni á dag og athuga hvað það gerir fyrir ykkur. Og munið að fjölbreytni er lykilatriði.

Grænmeti

 • Brokkolí
 • Spínat
 • Grænkál
 • Flest önnur laufgræna
 • Gulrætur – gott bragð miðað við grænmeti
 • Radísur – ekki nota of mikið og nýtið einnig grænu laufblöðin sem vaxa uppúr þeim
 • Engifer – notist í hófi, gefur sterkt bragð. Getur bjargað hræringum sem eru ekkert alltof bragðgóðir
 • Blómkál
 • Rauðrófur – gefur sterkan rauðan lit á hræringinn

Ávextir

 • Epli – epli á dag heldur lækninum víðs fjarri
 • Banani – kóngur í ríki sínu í ávaxtaflokknum að mínu mati
 • Avókadó – liggur við að maður vilji ekki eyða því í hræring vegna þess hve gott það er á öðrum vígstöðum í matargerð
 • Mangó – einn af mínum uppáhalds ávöxtum
 • Ananas – góður til að draga úr bólgumyndun eftir áreynslu. Ekki gleyma að nota stilkinn í miðju ananassins
 • Appelsína
 • Lime
 • Sítróna
 • Kíví – skola vel og nota hýðið
 • Vatnsmelóna – nota hýðið
 • Cantilope melóna – ekki sleppa því að nota fræin í miðju melónunnar
 • Granat epli – andoxunarrík og meðal annars góð fyrir hjartað
 • Jarðaber
 • Bláber
 • Brómber
 • Hindber
 • Plómur
 • Döðlur

Fræ

 • Hörfræ
 • Sesamfræ – góð fyrir beinheilsu
 • Chiafræ – orkugefandi
 • Sólblómafræ
 • Graskersfræ

Vökvi

 • Vatn
 • Möndlumjólk
 • Sojamjólk
 • Haframjólk

Takið næringarupplýsingum með fyrirvara. Ég er ekki næringarfræðingur en ég get lofað ykkur því að öll hráefnin á þessum lista gerir ykkur gott.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson

5 Comments:

 1. Sæll Arnór.

  Mig langar aðeins að forvitnast með hristingana hjá þér. Hvað ertu að setja mikið af hverju fyrir sig? Þori ekki alveg að fara að henda bara einhverju magni út í og enda með einn ógeðslega hristing! Blandarinn minn tekur bara að vísu 1.5lítra.

  • Blessaður Viktor

   Ég pæli voða lítið í magninu slumpa bara á þetta. Ég mundi bara nota mikið af ávöxtum, þá ertu nokkuð öruggur um að fá bragðgóðann hræring. Bættu síðan grænmetinu smám saman við til þess að venjast.

   Gangi þér vel.

   kv. Arnór Sveinn Aðalsteinsson

 2. Sæll Arnór

  Blandarinn minn ræður við allt frosið og klaka en er ekki alveg að ná döðlunum, hvernig blandara ertu að nota?

  • Sæll Ásgrímur

   Döðlurnar geta verið erfiðar, en ertu að nota ferskar eða þurkaðar? Þurkaðar döðlur eru mjög erfiðar fyrir blandarann en ferskar (með stein sem þú tekur sjálfur úr) eru mun auðveldari. Ég er að nota öflugan Vitamix blandara.

   kv. Arnór Sveinn

 3. Pingback: Venjulegur dagur | Arnór Sveinn Aðalsteinsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *