Grænkerar og Íþróttir: Patrik Baboumian

Fjölmargt íþróttafólk hefur farið svipaða leið og ég og gerst grænkerar. Mig langar til þess að kynna fyrir ykkur reglulega hér á síðunni afreksfólk sem eru grænkerar. Það er aragrúi af afreksfólki þarna úti sem er á grænmetisfæði og langar mig að sýna fram á að þessir einstaklingar geti vel að náð langt í íþróttum og jafnvel bætt árangur sinn.

Patrik Baboumian er góður næsti kandídat í þennan lið Grænkerar og Íþróttir. Patrik er kraftlyftingarmaður (strongman) og viti menn hann er einnig grænkeri. Patrik er  af Írönskum og Armönskum uppruna en með Þýskt ríkisfang þar sem hann hefur búið þar frá sjö ára aldri. Árið 2005 hætti hann að borða kjöt og árið 2011 gerðist hann grænkeri þar sem hann sniðgekk allar dýraafurðir. Alla tíð hef ég haldið að ekki sé hægt að vera sterkur nema að borða kjöt og því virðist þetta vera mikil mótsögn að maður í þessum geira skuli sniðganga alfarið matinn sem gerir mann “stóran og sterkan”. En Patrik hefur afsannað þessa mýtu algjörlega, því ekki nóg með það að hann skuli stunda kraftlyftingar á þessu fæði þá gerir hann það með frábærum árangri. Meðal annars var hann sterkasti maður Þýskalands árið 2011 og setti nýverið heimsmet þar sem hann gekk 10 metra með 555 kg á bakinu (sjá myndband).

http://www.youtube.com/watch?v=ZTaGZ6KLDwI

Í myndbandinu hér fyrir neðan talar Patrik aðeins um “strongman” íþróttina sem hann stundar og afhverju hann er grænkeri. Hann talar um það að hann hafi breytt um lífstíl vegna siðferðislegra sjónarmiða og verið tvístígandi í byrjun vegna þess að hann hélt að þetta myndi koma niður á framistöðu sinni í íþróttum. Það kom honum svo á óvart að þessi lífstíll, sem hann valdi vegna ást sinnar á dýrum, hafði gríðarlega jákvæð áhrif á árangur hans sem kraftlyftingamaður.

Eitt fallegt myndband í lokin frá dýraverndunarsamtökunum PETA

Patrik Baboumian er mjög áhugaverður maður með sterkar skoðanir og siðferðiskennd. Honum er greinilega sama um hvað öðrum finnst og er óhræddur við að fylgja hjartanu og gera það sem hann telur vera rétt. Hann er maður sem ég lít upp til og vona ég að þið hafið haft gagn og gaman af því að kynnast honum og því sem hann stendur fyrir betur.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *